Um Ísland Úganda

„Ísland Úganda”
-heimildamynd um ungt fólk í fyrrverandi nýlenduríkjum Evrópuþjóða: Ísland og Úganda


Ísland Úganda er heimildamynd í vinnslu sem fjallar um mismunandi stöðu ungs fólk á Íslandi og Úganda, þ.e. fyrrverandi nýlendna evrópskra stórvelda – Danmerkur og Bretlands en löndin bæði fengu sjálfstæði um svipað leyti.
Í myndinni verður fylgst með daglegum venjum ungs fólks í hvoru landi fyrir sig og fá þeirra hugmyndir og hugsjónir ítarlega umfjöllun í myndinni sjálfri. Við munum sjá hvernig harður veturinn og skammdegið ber á ungu Íslendingana á móti sólríkjum björtum degi hjá unga fólkinu í Úganda. Við fylgjum þeim í þeirra daglegu störfum og gefum áhorfendum tækifæri á að velta fyrir sér andstæðum þessara tveggja ríkja og hvernig þau endurspegla þeirra eigið líf. Lífskjörin, menntun, leikur og störf verða í fyrirrúmi.

Mörg ungmenni á Íslandi í dag gera  sér ekki grein fyrir því að alls ekki fyrir löngu var Ísland flokkað undir hatt þróunarríkja. Hröð þróun  á sviðum menntamála og efnahagslegra umbóta hafa leitt Ísland á rétta braut og telst landið nú með þróuðustu ríkjum heims. Aftur á móti hefur þróunin verið uppá annan teningin hjá Úganda. Hvað útskýrir þennan mikla mun á þessum tveimur löndum, sem voru ekki í svo ósvipuðum málum til að byrja með? Hvernig hefur þessi mismikla þróun landanna tveggja haft áhrif á daglegar venjur ungs fólks í landinu fyrir sig? 

Markmiðið er að taka annan pól á umræðuna um nýlendustefnu Evrópuþjóðanna og sýna afleiðingar hennar í nýju ljósi. Að sama skapi ætti myndin veita öðru ungu fólki innsýn inn í stærð veraldarinnar og hvar kjarni mannfólksins liggur, hvar sem það er statt á jörðinni. 

Heimildamyndin er styrkt af styrktaráætlun Evrópusambandsins, Evrópa Unga fólksins, sjá: www.euf.is.

Um kvikmyndagerðarmennina
Garðar Stefánsson hefur áður leikstýrt tveimur heimildamyndum, Sófakynslóðin (2006) (Besta heimildamyndin á Skjaldborg 2007) og Athvarfið (2009). Garðar vinnur nú, ásamt Ísland Úganda, að annarri heimildamynd um íslensku krónuna sem stefnt er á að ljúka haustið 2009.

Rúnar Ingi Einarsson hefur í gegnum tíðina framleitt og leikstýrt tónlistarmyndböndum (Ampop, Sálin, Garðar Thor Cortes, Sign, Frostrósir) og auglýsingum (Landsbankinn, Nova, N1 og m.fl.).  Þá hefur hann einnig fengist við stuttmyndagerð og hlaut m.a. hvatningarverðlaun Eddunnar árið 2006 fyrir stuttmyndina Presturinn, djákninn og brúðguminn. Hann starfar nú fyrir Kvikmyndamiðstöðina sem íslenskur ritstjóri fyrir dvoted.net sem er vefur fyrir unga kvikmyndagerðarmenn á Norðurlöndunum. Ísland Úganda er hans fyrsta heimildamynd.

Færðu inn athugasemd